Íslenskt athafnalíf fær kínverska vítamínsprautu

 

Allar líkur eru á að Valgerður Sverrisdóttir undirriti ákvörðun um að hefja samningaviðræður um tvíhliða fríverslunarsamning milli Íslands og Kína í næsta mánuði. Hólmfríður Helga Sigurðardóttir skoðaði þau tækifæri sem kunna að fylgja í kjölfarið verði samningurinn að veruleika.

 

Margt bendir til þess að innan fárra ára verði Kína mikilvægasta viðskiptaland Íslands, að Evrópusambandinu í heild undanskildu. Viðskipti milli Kína og Íslands hafa farið hratt vaxandi undanfarin ár en fyrir einungis tíu árum voru þau sama sem ekki nein. Í byrjun næsta mánaðar mun Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra Íslands, fara í opinbera heimsókn til Kína. Búast margir við því að hún snúi til baka með undirritaða ákvörðun þess efnis að hefja samningaviðræður um tvíhliða fríverslunarsamning milli Íslands og Kína.

 

Af hverju velja Kínverjar Ísland?

Sú staðreynd að örríkið Ísland veki áhuga Kínverja hefur á sér nokkurn óraunveruleikablæ. Hvað var það til dæmis sem olli því að í fyrra komu hingað fjórir kínverskir ráðherrar í opinbera heimsókn og fjöldi viðskiptasendinefnda? Ein kenningin sem heyrst hefur er að Kínverjar vilji nota Ísland til að máta sig við Evrópu. Hér séu skilyrði til þess góð, íslenskt stjórnkerfi aðgengilegt, boðleiðir stuttar og ákvörðunarferlið stutt. Þetta gæti því verið kjörin leið til að þreifa sig áfram inn á Evrópumarkaðinn. Önnur ástæða er sú að Ísland er eitt þeirra fáu ríkja sem hafa viðurkennt Kína sem markaðshagkerfi í skilningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Kína hóf aðlögun sína að stofnuninni árið 1986, er enn í því ferli og verður allt fram til ársins 2016. Fram til þess tíma viðurkennir Evrópusambandið Kína ekki sem markaðshagkerfi og hverfandi líkur eru á að fríverslunarsamningur verði gerður milli veldanna.

Ekki er heldur talið líklegt að samningurinn verði á EFTA-grunni, í það minnsta ekki til að byrja með, aðallega af þeirri ástæðu að mun einfaldara er að gera tvíhliða samning milli tveggja ríkja. Sviss er líka að undirbúa tvíhliða viðræður við Kína. Því er ekki ólíklegt að ef Ísland gerði samning fyrst myndi hann með tímanum þróast út í að verða EFTA-samningur.

 

Verulegar breytingar á viðskiptum

Hverju sem við megum þakka áhuga Kínverja á viðskiptum við okkur er það staðreynd að ef samningurinn verður að veruleika öðlast Ísland töluvert samkeppnisforskot á aðrar Evrópuþjóðir. Nýleg könnun nemenda við Háskólann í Reykjavík sýnir að um helmingur þeirra sem flytja inn vörur frá Kína gerir það í gegnum milliliði, oft á Norðurlöndunum. Algengt er að fimmtán prósenta tollur sé á vörum sem fluttar eru frá Kína inn í Evrópusambandið. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins, segir að samkvæmt reglum ætti þessi tollur að vera endurgreiddur þegar varan er flutt aftur út úr Evrópusambandinu. Vegna þess hve lítill markaður Ísland er þyki mörgum útflytjendum ekki taka því. Þess vegna sitji Íslendingar oftar en ekki uppi með tvöfaldan toll af vörum sem koma frá Kína.

Stærstur hluti þeirra vara sem fluttar eru frá Kína er iðnaðarvörur. Þó er einnig talsvert mikið um neysluvörur sem framleiddar eru í Kína og fluttar hingað til lands. Sem dæmi má nefna að stór hluti af þeirri merkjavöru sem Íslendingar kaupa, til að mynda langmest af þeim sportfatnaði sem framleiddur er í heiminum, er framleiddur í Kína. Mörg þessara merkja hafa umboðsmenn hér á landi sem eru bundnir öðrum umboðsmönnum, til dæmis á Norðurlöndunum. Andrés segir að líklegt sé að á þessu yrði breyting og því ættum við að sjá verulega lækkun á verði ýmissa neysluvara hér á landi með samningnum.

 

Dæmalausir möguleikir

Margvíslegar aðrar breytingar gætu orðið á viðskiptum Kínverja og Íslendinga. Til að mynda gætu skapast hagstæð skilyrði fyrir að Ísland verði milliliður fyrir viðskipti milli Kína og Evrópu. Einnig gæti verið hagkvæmt að flytja vörur frá Kína til Íslands, vinna þær frekar hér og fá á þær íslenskt upprunavottorð og selja þær áfram til annarra Evrópulanda. Vonir standa jafnframt til þess að samningurinn verði annarrar kynslóðar fríverslunarsamningur. Það þýðir að hann taki yfir öll svið milli landanna en ekki bara afnám á tollum. „Tækifærin sem þetta gæti skapað eru ótakmörkuð,“ segir Andrés. „Ef við náum að fella niður alla tolla, bæði af vörum og hvers konar þjónustu, geta skapast hér möguleikar sem eiga sér enga fyrirmynd og eru algjörlega dæmalausir í viðskiptum Íslands við önnur ríki.“

 

 Fréttablaðið 29. nóv 2006.  Blm Hólmfríður Helga Sigurðardóttir